Tröllaborgir 15 ára og opnun Árholts

Í dag eru liðin 15 ár frá vígslu leikskólans Tröllaborga. Á þessum tímamótum gleðjumst við einnig yfir opnun Árholts sem er nú orðin yngri barna deild í Tröllaborgum. Við viljum þakka fyrrum starfsmönnum, foreldrum, nemendum og öðrum sem hafa komið að starfsemi leikskólans fyrir góðar stundir á liðnum árum.
Í tilefni afmælisins langar okkur að rifja upp hvernig nokkrir nemendur skólans svöruðu spurningum um dygðir á Degi leikskólans árið 2007 og hvernig þau myndu svara í dag, sjá hér að neðan.  Hlýjar kveðjur frá öllum í Tröllaborgum.

6. febrúar – Dagur leikskólans

Í tilefni að degi leikskólans sem var í gær þann 6. febrúar þá fórum við í Laut á stjá um bæinn okkar til þess að gleðja aðra. Við sömdum ljóð á dögunum um bæinn okkar Akureyri og færðum Skóladeild Akureyrarbæjar, Sjónvarpsstöðinni N4, leikskólastjóranum okkar henni Jakobínu og einnig gengum við í hús hér um nágrennið og færðum nágrönnum okkar ljóðið 🙂
      

Laut – gaman saman

Það hefur aldeilis margt á daga okkar drifið í jólamánuðinum sem nú er ný afstaðinn. Við lásum söguna Ævintýrið um Augastein og unnum eitt stykki listaverk eftir þann lestur. Við útbjuggum jólagjafir, perluðum, teiknuðum, klipptum, límdum, fórum í allskonar leiki, strætóferðir, safnferð, búðarferð sem var hluti af hjálpsemisverkefni okkar og svo mætti lengi lengi lengi telja 🙂 Yndislegur tími með þessum frábæru börnum 🙂

   


 

Jólaball í Tröllaborgum

Föstudaginn 14. des var haldið jólaball fyrir börn og starfsmenn Tröllaborga. Þeir bræður Stekkjastaur og Giljagaur kíktu við, dönsuðu með okkur í kringum jólatréð og að lokum fóru þeir inn á deildir og færðu börnunum pakka. (Hægt er að stækka myndirnar með því að ýta á þær)  🙂

Minjasafnið – Laut

Á þriðjudaginn síðastliðinn fórum við í Laut í heimsókn á Minjasafnið. Þar hittum við hana Rögnu sem fræddi okkur um hefðirnar í gömlu daga, til dæmis hvernig fólk tendraði ljós, hún sýndi okkur úr hverju fólk borðaði matinn sinn eða askinn. Einnig fengu börnin að prófa að kemba og þæfa ull líkt og fólk gerði í gamla daga.
 

 

Laut og hátíðarhöld í Glerárskóla

Nú stendur yfir afmælishátíðarvika í Glerárskóla. Skólahald í Glerárþorpi er 110 ára 🙂 Við í Laut tökum að sjálfsögðu þátt í þessum hátíðarhöldum. Í dag var fyrirhuguð skrúðganga en við fórum ekki vegna veðurs en við fórum hins vegar á samkomu í sal skólans og hlýddum á skólastjórann halda tölu sem og fleiri gesti. Að lokinni dagskrá í salnum var boðið upp á kökuhlaðborð fyrir alla nemendur skólans, virkilega flott 🙂

Laut – Heimsókn í Rauða krossinn

Eins og flestir vita þá erum við í Laut að læra um dygðina hjálpsemi, þess vegna ákváðum við að safna saman gömlum og of litlum fötum af okkur og gefa til Rauða krossins. Við fórum þangað með flíkurnar sem söfnuðust í síðustu viku og fengum í leiðinni fræðslu frá starfsmanni Rauða krossins 🙂  Við löbbuðum báðar leiðir í blíðskapar veðri og börnin stóðu sig frábærlega vel. Virkilega skemmtileg og vel heppnuð ferð.

Heimsókn í Rauða krossinn, Berg

Þetta haustið erum við að tileinka okkur dygðina hjálpsemi og ákváðum við í Bergi að safna  saman gömlum og of litlum fötum af okkur og færa Rauða krossinum afraksturinn í  fatasöfnun þeirra. Fimmtudaginn 22. nóv fórum við svo í vettvangsferð í Rauða krossinn með stútfulla poka sem við þurftum að hjálpast að við að bera á áfangastað. Að sjáfsögðu var tekið afskaplega vel á móti okkur og fengu börnin fræðslu um mikilvægi fatasöfnunar bæði hvað varðar hjálparstarf og endurvinnslu.

Laut skoðar umferðarmerkin

Við í Laut fórum í gönguferð um hverfið og skoðuðum umferðarmerkin sem urðu á vegi okkar. Fræddumst um hvað þau heita og hvað þau merkja. Síðan æfðum við okkur í að fara yfir nokkrar gangbrautir á leið okkar á leikvöllinn við Sunnuhlíð. Allir þurfa þá að stoppa, horfa og hlusta 🙂

Stafir hér og stafir þar, Berg

Börnin í Bergi hafa mikinn áhuga á bókstöfunum og er gaman að sjá hvernig stafirnir flæða í gegnum leikinn hjá þeim og skiptir þá engu máli hvort þau séu við matarborðið eða í útiveru. 🙂

  

Tröllahópur heimsækir bókasafn Giljaskóla, Berg

Í gær heimsótti Tröllahópur bókasafn Giljaskóla en þar tók hún Ingunn, skólasafnskennari, á móti okkur. Hún sagði okkur frá bókasafninu, las fyrir okkur skemmtilega bók um ref, sýndi okkur uppstoppuð dýr (þar á meðal ref) og í lokin fengum við að skoða alls konar skemmtilegar bækur. Á leiðinni heim var farið að snjóa og skemmtu börnin sér við að skrifa stafi með fótunum í fölina, sjá myndir hér !

Alþjóðlegi bangsadagurinn – Laut

Í dag höldum við í Laut uppá alþjóðlega bangsadaginn, börnin mættu með bangsann sinn og læra og leika með hann í dag. En á meðan útiveru barnanna stendur þá hvíla bangsarnir sig í sætum þeirra í krók 🙂 Eigið góða helgi og takk fyrir vikuna 🙂

 

Byggingarlist Bergi

Börnin hafa einstaklega gaman af því að byggja úr seglaplötum sem við eigum og er gaman að fylgjast með allri stærðfræðinni sem á sér stað í byggingarferlinu. Börnin keppast við að byggja sínar eigin byggingar og eins hafa þau byggt hinar og þessar eftirmyndir af kirkjum landsins s.s. Akureyrarkirkju. Hver veit nema hér séu upprennandi byggingafræðingar og arkitektúrar á ferð ? 🙂

Bangsasögustund – Hvammur

Á mánudaginn tókum við í Hvammi strætó niður í bær og fórum í í heimsókn á Amtbókasafnið. Þar sem Fríða tók á móti okkur í bangsabúning og las fyrir okkur skemmtilega sögu um bangsa. Eftir sögustundina fengum við að skoða bækur, leika okkur og lita bangsamyndir. Á leiðinni heim fórum við svo í nokkra leiki á torginu áður en tími var kominn til að taka strætó aftur upp í leikskóla.

  

Samstarf, Laut

Samstarf 1. bekkjar Glerárskóla, Hulduheima/Kot og Tröllaborgir Laut. Við hittumst í fyrsta sinn í gær þann 15. okt og lékum okkur saman á skólalóðinni. Við ætlum að hittast einu sinni í mánuði og gera ýmislegt skemmtilegt saman.

Heimsókn á Amtbókasafnið, Berg

Í gær fórum við með strætó í heimsókn á Amtbókasafnið. Þar tók hún Fríða á móti okkur í bangsabúningi og las fyrir okkur skemmtilega sögu um hjálpsaman bangsa. Að sögustund lokinni máttum við lesa bækur, lita bangsamyndir og leika okkur. Við tókum svo strætó aftur í leikskólann og komum beint í skemmtilegt söngvaflóð. 🙂

Heimsókn slökkviliðsins, Berg

Í gær heimsóttu þeir Alli og Maron slökkviliðsmenn Tröllahóp í Bergi. Þeir fræddu okkur um eldvarnir og sýndu okkur búningana sína. Við fórum svo á Velli þar sem þeir sýndu okkur fræðslumynd  um búálfa systkinin Loga og Glóð sem eru sérlegir aðstoðarmenn slökkviliðisins.
Í vetur munum við í Tröllahóp nefnilega aðstoða slökkviðið og sjá um eldvarnareftirlit í skólanum okkar. Börnin fara tvö saman í einu, ásamt kennara, hring um skólann og skoða hvar slökkvitækin eru geymd, brunaslöngur, athuga með reykskynjara, eldvarnakerfið, ruslasöfnun og fleira. 🙂 Í lokin fengum við svo að skoða slökkvibílinn að utan sem innan, sjá myndir hér !

Laut – Slökkvilið í heimsókn

Í gær fengum við í Laut aldeilis skemmtilega heimsókn. Þeir Alli og Maron frá slökkviliðinu komu til okkar og fræddu okkur um eldvarnir sem og hlutverk slökkviliðsmanna. Þeir sýndu okkur stutta kvikmynd um þau Loga og Glóð sem eru aðstoðarmenn slökkviliðisins. Við í Laut ætlum að aðstoða slökkviðið í vetur líkt og Logi og Glóð gera þ.e. sjá um eldvarnareftirlit í skólanum okkar.
Við munum fara tvö og tvö saman hring um skólann skoða hvar slökkvitækin eru geymd, brunaslöngur, ath með reykskynjara, eldvarnakerfið, ruslasöfnun og fleira. Mjög spennandi verkefni 🙂
En þeir sýndu okkur líka slökkviliðsbúninginn sem þeir klæðast þegar þeir þurfa að slökkva eld og svo fengum við að skoða og fara inní slökkiviðsbílinn þeirra.

Gönguferð – Hvammur

Á mánudaginn skelltum við okkur í gönguferð að tína laufblöð. Krakkarnir voru mjög dugleg að labba og fundu fullt að laufblöðum sem við erum svo búin að setja í pressun og ætlum að gera eitthvað skemmtilegt úr við tækifæri.